Skrifstofa
Á vefsíðum art.is verða sýnd verk eftir um fimmtíu listamenn sem taka þátt í verkefninu, en jafnframt verða birtir þar textar um myndlist þeirra. Til að byrja með er valið úr því sem þegar hefur verið skrifað um hvern listamann, en fljótlega er ætlunin að ráða innlenda og erlenda höfunda sérstaklega til að fjalla um listamennina á vefnum. Líkt og við valið á þeim listamönnum sem boðið verður að vera á vefnum verður einnig tryggt að umfjöllunin um þá verði eins vönduð og kostur er.

Vefurinn er uppbyggður að nokkru leyti eins og tímarit, þótt alltaf megi nálgast þar allar upplýsingar um myndlistarmennina og verk þeirra. Þetta þýðir að nýju efni er reglulega bætt inn á síðurnar og það kynnt rækilega. Þannig munu menn alltaf finna eitthvað nýtt á vefnum þegar þeir fara að venja komur sínar þangað. Stöðugt er unnið að því að endurnýja upplýsingar og bæta inn forvitnilegu efni. Jafnframt verður komið á fót viðamiklum gagnabanka um sögu íslenskrar myndlistar þegar fram líða stundir.

Þá verða fengnir sýningarstjórar til að setja saman sýningar á vefnum þar sem listamennirnir fimmtíu verða í fyrirrúmi, auk þess sem listamenn verða valdir til sérstakrar kynningar og umfjöllunar. Rík áhersla verður lögð á að fá virta erlenda listamenn og gagnrýnendur til þátttöku í vefnum með það fyrir augum að setja íslenska myndlist í alþjóðlegt samhengi. Fyrir utan að stuðla að faglegri umfjöllun mun art.is leitast við að skipuleggja sjálfstæð verkefni, afla styrkja, gefa út bækur, treysta erlend sambönd og skapa aukin tækifæri fyrir listamenn.

Stefnt er að því að gera þennan vef að sterku afli í íslensku myndlistarlífi og ekki síst í kynningu á íslenskri myndlist erlendis. Með kynningu á fimmtíu völdum listamönnum, vandaðri framsetninu og lifandi umfjöllun verður hægt að ná þessu marki. Vefurinn getur orðið eins konar lykill að því besta í myndlist hér á landi og stuðlað að aukinni umfjöllun um og útbreiðslu á verkum listamannanna. Hann mun um leið sinna hlutverki umboðsmanns að nokkru leyti, svara fyrirspurnum sem berast gegnum Internetið, aðstoða við úrlaus þeirra og hafa milligöngu gagnvart söfnum og sýningarstjórum erlendis. Jafnframt verður unnið sérstaklega að því að koma upplýsingum um listamennina beint í hendur viðeigandi aðila erlendis; starfsemin mun byggjast á beinni markaðssetningu. Þessi markaðssetning verður öflugri fyrir það að vefurinn hefur á að skipa fimmtíu listamönnum. Hann getur í raun boðið fólki aðgang að bestu myndlist sem verið er að vinna á Íslandi.

art.is er einkaframtak, sjálfstætt og framsækið fyrirtæki en ekki stofnun eða félag. Líkt og útgáfufyrirtæki eða sjálfstætt gallerí mun það velja úr það besta hverju sinni og metnaðurinn verður lagður í veglega og lifandi framsetningu á þeim listamönnum sem teknir verða til umfjöllunar. Öll kynning fer fram í nafni art.is sem hefur á að skipa framkvæmdastjóra, ritstjóra, grafískum hönnuði og mörgum af hæfustu gagnrýnendum landsins.

Vefsýsla
Útlitshönnun, uppsetning og stafræn umsýsla art.is vefsins
listamenn
gagnrýni
gallerí
miðstöð
stofa
enska
e-mail