Georg Guðni
Georg Guðni og heiðalandslagið

eftir Jón Proppé

Sumir módernistar töldu að landslagsmálverk væru eins konar þversögn eða paradox. Þannig útskýrir Theodor Adorno í fagurfræði sinni að þar sem náttúran sjálf sé myndræn hljóti myndir af henni að vera ekkert annað en hermilist, eftirmyndir eða kópíur sem geti engu við bætt og skorti í raun það sem mestu máli skiptir í upplifun okkar á náttúrulegri fegurð: Tilfinninguna fyrir raunveruleika náttúrunnar og lífi. Til að lífga við málverkið skyldu málarar leita að raunveruleika málverksins sjálfs í stað þess að apa upp ytri veruleika náttúrunnar, leita að innra lífi litanna og formanna sjálfra. Þessi sannfæring lá að baki afstraktlistinni og átti jafnframt sinn þátt í því að margir listamenn sneru sér alfarið frá málverkinu og leituðu nýrra miðla.

Það kom því mörgum á óvart þegar Georg Guðni sýndi fyrst landslagsmyndir sínar fyrir um þrettán árum. Líklega hafði fáum þá dottið í hug að ungur listamaður gæti í fullri alvöru og án allrar kaldhæðni helgað sig landslagsmálverki eftir allt sem á undan hafði gengið, margendurtekið ‘uppgjör’ við landslagshefðina og innreið nýlistarinnar í öllum sínum birtingarmyndum. Margir hafa vísast haldið að hér væri um einhvers konar brandara að ræða, póstmódern tilvísun sem Georg Guðni mundi fljótlega hverfa frá og finna sér í staðinn eitthvað bitastæðara til að skerpa á hæfileika sína.

En eins og Bragi Ásgeirsson benti á strax árið 1985 voru myndir Georgs Guðna ‘ekki nein venjuleg landslagsmálverk’. Rannsóknir hans á myndfletinum beindust að beinum skynhrifum og möguleikum formsins sjálfs. Við þær rannsóknir er landslagið ekki aðeins hlutlaust viðfangsefni heldur beinn þátttakandi, hin lifandi sjónræna veröld þar sem við getum grafist fyrir um eðli skynjunar okkar og samband okkar við veruleikann sjálfan. Nú eru liðin þrettán ár og rannsóknum Georgs Guðna er ekki enn lokið og ekkert sem bendir til að þeim ljúki nokkurn tíma. Hvað hefur þá áunnist -- hvaða niðurstöður má rekja á þessu stigi í starfi málarans?

Georg Guðni hefur nú snúið sér að annars konar landslagi en sást í myndum hans fyrir þrettán árum. Í stað fjalla og hóla, hinna auðþekkjanlegu náttúrumyndana sem hafa verið viðfangsefni íslenskra málara í heila öld, málar hann nú heiðalandslag, hið fábreytilega vind- og jökulsorfna landslag þar sem ferðamenn villast af því þeir sjá ekkert sem þeir geta áttað sig eftir. Það er engu líkara en hann vilji ögra bæði sjálfum sér og áhorfandanum með því að velja þetta forsmáða landslag sem Íslendingar hafa ekki ferðast um ótilneyddir og vilja helst hafa aðeins fyrir kindur. Slík málverk eru nánast ekki af neinu; þau draga ekki fram neinar náttúruperlur og gætu verið máluð nánast hvar sem er á landinu. Efnisvalið neyðir þannig áhorfandann til að gaumgæfa verkið sjálft, málverkið, og býður honum ekki þá undankomuleið að þekkja fjallið í myndinni og meta hana út frá því hve vel eða illa listamanninum hafi tekist að ‘ná’ því. Georg Guðni er kröfuharður listamaður, bæði á sjálfan sig og áhorfendur sína.


(úrdráttur úr texta í sýningarskrá, Kjarvalsstaðir, 1998)

Georg Guðni Olía á striga 100x110 Landslag 1998

Georg Guðni Olía á striga 100x110 sm Landslag 1998

Georg Guðni Olía á striga 70x85 sm Landslag 1997

listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail