Finnur ArnarArnarson
Myndlistarmaðurinn Finnur Arnar er að vissu leyti undir áhrifum frá leikmyndahönnuðinum Finni Arnari - eða kannski spratt leikmyndahönnuðurinn uppúr myndlistarmanninum í eðlilegu framhaldi af þeim vinnubrögðum sem honum eru tömust. Nefnilega því að búa til aðstæður utanum atburð eða ástand.

Frásögnin leikur stórt hlutverk í myndlist Finns þótt hann segi sjaldnast alla söguna sjálfur. Í verkum hans má oft finna spor eftir fólk, ummerki atburða sem gjarnan eru þess eðlis að fæstir myndu segja frá þeim. Þetta eru sjálfsagðir og hversdagslegir hlutir, hluti af daglegu striti og amstri - innkaup, vinna, dagdraumar. Augnablikið er frosið, einhver er nýfarinn eða rétt ókominn, brá sér kannski á klósettið og lagði dótið sitt frá sér rétt á meðan. En hversu nálæg sem sögupersónan virðist, bæði í tíma og rúmi, gerist ekkert meira, ekki á þessu sviði. Framhaldið, eða það sem á undan er gengið, verður til í hugskoti áhorfandans sem hefur allan heimsins tíma til að skapa sér sína eigin persónu inní aðstæðurnar.

Sögumaðurinn er ekki búinn að finna hið fullkomna form heldur er hann sífellt að leita að nýju sjónarhorni. Stundum er hann ljóðrænn og dreymandi, stundum háðskur, sum verkin eru hlý og persónuleg og í sumum verkum má segja að hann sé fjarlægur og félagsvísindalegur í athugun sinni á viðfangsefninu. Lífið hefur svo margar hliðar og svo margt sem getur varpað ljósi á einstaklinginn. Til dæmis draga þær upplýsingar sem fram koma á venjulegum launaseðli fram ákveðna mynd af launþeganum - hvað hann starfar, hvað hann hefur mikla peninga á milli handanna og hversu miklum eða litlum tíma hann eyðir í vinnunni. Áhorfandinn getur t.d. dundað við að reikna út hvort nokkur tími sé fyrir einkalíf eða áhugamál. Þurr starfsferilsskrá segir ýmislegt um einstaklinginn en öllu persónulegri frásögn birtist í lífshlaupi hans þegar viðkomandi telur sjálfur upp mikilvægastu viðburði lífs síns eða greinir frá einlægustu framtíðaráformum sínum.

Þjóðfélagsleg gagnrýni setur í raun mark sitt á flest verka Finns þó hún sé ekki alltaf jafn sýnileg. Þau verk sem eru hvað mest áberandi pólitísk eru ef til vill sömu verk og bera íronískustu einkennin. Listamaðurinn dregur fram fáránleikann og ósamkvæmnina sem svo mjög gegnsýrir líf manneskjunnar. Við höfum látið í minni pokann fyrir kröfum samtímans um lífsstíl og neyslu og rísum engan veginn undir hugmyndum um einfaldara og fegurra mannlíf, sem þó heilla okkur mörg hver svo mjög. Baráttan er í skötulíki. Við skreytum okkur með bjargföstum prinsippum og höldum skoðunum okkar hátt á lofti þegar það hentar okkur en þess á milli erum við auðmjúkir þjónar andstæðingsins á fullri ferð í lífsgæðakapphlaupinu. Þrátt fyrir skýr skilaboð á stundum er listamaðurinn ekki að predika yfir okkur hinum. Hann er sjálfur þátttakandi í kappinu mikla -  kaupir rakadrægar pappírsbleyjur fyrir börnin sín fyrir blóðpeninga, parkerar fjölskyldubílnum og marserar eftir merktum gönguleiðum undir hentifána hugsjóna annars fólks einn sólríkan dagpart.  

Áslaug Thorlacius
Greinar
Þessi hluti er ætlaður umfjöllun ýmisskonar og verður bráðlega aðgengilegur.
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail